VELKOMIN Á HEIMASÍÐUNA FRÚEXCEL.IS


Hæ, ég heiti Guðlaug Erna Karlsdóttir og vinn á Fjármálasviði Háskóla Íslands. Ég er menntaður viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og með framhaldsmenntun í fjármálum og alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum í Árósum. Mér finnst fátt skemmtilegra en að sökkva mér ofan í Excel í vinnunni. Hmmm hugsa eflaust einhverjir, hverjum finnst það? Nú, þeir sem hafa gaman af því að finna leiðir til að auka skilvirkni í störfum sínum, búa til verðmætar upplýsingar úr gögnum og eru grúskarar í eðli sínu.

Frú Excel

Hugmyndin að þessu bloggi kviknaði á fundi í vinnunni þar sem kom til tals að gott væri ef einhver myndi taka að sér að búa til kennslumyndbönd í Excel fyrir starfsfólkið. Já……því ekki ég? Samstarfsfólk mitt var þegar farið að leita til mín og biðja mig um aðstoð og ég búin að halda nokkur námskeið í vinnunni sem ég hafði mjög gaman af.

Smá saman varð til í huga mínum karakterinn Frú Excel sem segir stundum frá raunum sínum í vinnunni og hvernig hún leysir verkefnin sín í Excel. Ég hef nefnilega líka gaman af smá skáldskap en þegar börnin mín þrjú voru lítil las ég ekki fyrir þau heldur skáldaði mínar eigin sögur. Síðan finnst mér mjög gaman að allri grafík og myndvinnslu sem fylgir því að vera með blogg.

Markmið þessa bloggs er sem sagt einfaldlega að hafa svolítið gaman af lífinu og gera það sem mér finnst skemmtilegt. Ekki endilega að koma með bestu lausnina á öllu heldur segja frá hvernig Frú Excel leysir verkefnin sín. Ef aðrir hafa gaman af og læra eitthvað nýtt þá er mín ánægja því meiri.